NM yngra liða beint á netinu

Nú í dag  hófst Norðurlandamót yngri liða í körubolta í Solna í Svíþjóð og verður fróðlegt að fylgjast með árangri krakkana okkar þar. Í morgun fór allur hópurinn okkar út en þetta er mjög fjölmennur hópur 48 leikmenn ( U16 ára drengja&stúlkna og U18ára drengja&stúlkna) fimm þjálfarar, fjórir dómarar, tveir sjúkraþjálfarar, þrír fjölmiðlamenn og fimm fararstjórar  sem sagt hátt í 70 manna hópur.  Stefnt er að því að sýna sem flesta leiki beint hingað heim á karfan.is og var fyrsta útsendinginn í kvöld - frábært framtak og sýnir enn og aftur hversu framarlega körfuboltinn er í allri netvæðingu og upplýsingaflæði til þeirra sem fylgjast með þessari stórkostlegu íþrótt.

Ég hvet alla að til að fylgjast vel með íslensku liðunum á kki.is og karfan.is

ÁFRAM ÍSLAND!!!


Íslenska landsliðið í rally

Núna um helgina munu Danni og Ísak keppa í Tempest rallinu á Englandi og verður gaman að fylgjast með þeim. Eins og vonandi allir vita er Danni ásamt systur sinni Ástu Íslandsmeistari í ralli og hafa þau verið að keppa núna í nokkrum keppnum á Englandi - Ásta komst ekki í þessa keppni og mun því Ísak vera í coara sætinu.

Það verður gaman fyrir þá félaga að hafa með sér öflugan stuðningshóp en hátt í 20 manna hópur heldur utan í fyrramálið til að styðja þá,  þeirra á meðal verða bræður mínir Dóri og Heimir - rosalega verður gaman hjá þessum hópi að horfa á íslenska áhöfn í stórri rallkeppni - bara líf og fjör.Wink Íslenskir  fjölmiðlar munu vonandi gera þessu góð skil því Dannig &co sem og íslenskir ralláhugamenn eiga skilið að um þetta sé fjallað. Hérna eru nokkrar bloggsíður þar sem hægt er að fylgjast með um helgina: bloggið hjá Dóra , bloggið hjá Heimi, bloggið hjá Danna, hægt er svo að fylgjast með á heimasíðu rallsins


Hver er stefnan Sigmundur

Körfuboltamenn hafa ósjaldan kvartað sáran yfir skorti á umfjöllun um íþróttina í íslenskum fjölmiðlum. Margir hafa haft hátt á heimasíðum og spjallsvæðum eða hver við annan. Undirritaður var einn af þeim sem hafði allt á hornum sér lengi en ákvað svo að taka upp nýja siði. Hætta að skammast og í þess stað að hrósa því sem vel er gert og vinna að því að aðgengi fjölmiðla sé meira að fréttum úr körfubolta. Meðal annars með því að skrifa á karfan.is.


Umfangsmikið mótahald KKÍ

Í gær þá ritaði ég eftirfarandi grein á heimsíðu Körfuknattleikleiksambandsins:

Íslandsmótið í körfubolta hófst með formlegum hætti helgina 29.-30. september síðastliðinn með fyrstu leikjum í Íslandsmóti yngri flokka. Í kvöld hefst svo keppni í Iceland Express deild karla með fjórum leikjum og á laugardag hefst keppni í Iceland Express deild kvenna með þremur leikjum. Það hefur skapast hefð að setja Íslandsmótið með formlegum hætti í fyrstu umferð efstu deildar karla. Að þessu sinni verður mótið sett í Vesturbæ Reykjavíkur hjá Íslandsmeisturum KR í DHL höllinni, er þeir taka á móti Fjölni.

Það hefur mikil gróska verið undanfarin ár í körfuboltanum og umfang mótahalds KKÍ hefur aukist ár frá ári og sér ekki fyrir endann á því. Ég tel að margir geri sér í raun ekki grein fyrir því öfluga starfi sem rekið er innan körfuknattleikshreyfingarinnar hringinn í kringum landið. Á þessu keppnistímabili eru alls 35 félög með 49 lið skráð til keppni í meistaraflokk karla auk 14 félaga með 15 lið í meistaraflokki kvenna. Alls tekur 41 íþróttafélag þátt í Íslandsmóti KKÍ í vetur í 15 flokkum. Í fyrstu umferð Íslandsmóts yngri flokka í lok september var keppt í fjórum flokkum í þrettán sveitarfélögum; Hafnarfirði, Hvammstanga, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Garðabæ, Höfn í Hornafirði, Akureyri, Ísafirði, Sauðárkróki, Flúðum, Kópavogi, Reykjanesbæ og Selfossi. Þessi upptalning sýnir glögglega hversu vinsæl körfuknattleiksíþróttin er um allt land og undirstrikar þá staðreynd að KKÍ sinnir einu umfangsmesta mótahaldi sérsambanda hér á landi.

Síðastliðinn vetur var góður fyrir körfuboltafólk og var gaman að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu þegar leið á veturinn. Ég er sannfærður um að þessi vetur verður jafn góður og með samstilltu átaki allra í hreyfingunni getum við gert hann betri.

Að lokum óska ég öllum körfuknatteiksmönnum velfarnaðar og góðs gengis í íþróttahúsum landins, ég hlakka til að hitta ykkur og ræða um körfuboltann.

Áfram körfubolti,
Hannes S.Jónsson
formaður KKÍ


Evrópumeistarar krýndir í kvöld

Eftirfarandi grein skirfaði ég áðan á  á kki.is héðan frá Madrid

Í dag verður spilað til úrslita um efstu sætin á Evrópumótinu í körfubolta sem fram hefur farið á Spáni undanfarnar tvær vikur og í kvöld verða krýndir nýjir Evrópumeistarar þegar heimamenn mæta Rússum í úrlslitaleiknum. Þrátt fyrir að lítið hafi farið fyrir þessari keppni hjá okkur Íslendingum þá er þetta einn af stærri íþróttaviðburðum sem fram fer þetta árið í íþróttaheiminum, það voru gefin út um 1600 fjölmiðlaleyfi og sýnt er frá þessari keppni til 115 landa víðs vegar um heiminn.

FIBA-Europe bauð formönnum og framkvæmdastjórum aðildarlanda sinna á úrslit EM og því hef ég ásamt Friðiki Inga Rúnarsyni framkvæmdastjóra KKÍ verið hér í Madrid síðan á miðvikudag og tekið þátt í þeirri miklu skemmtun sem fer fram hér á EM og séð körfubolta í hæsta gæðaflokki. Það hefur verið fróðlegt að sjá hversu stór þessi keppni er og m.a. er hér samnkominn fjöldinn allur af stuðningsmönnum liðanna sem og körfuboltaáhugamenn frá öðrum heimshlutum. Evrópskur körfubolti hefur ekki verið í þeirri umfjöllun hjá okkur Íslendingum sem við körfuboltaáhugamenn hefðum viljað en ég vona að breyting verði á, á næstu misserum m.a. með fleiri íslenskum atvinnumönnum í Evrópu. Einnig er keppnisfyrirkomulag Evópukeppninnar með því móti að við fáum sjaldan eða aldrei bestu þjóðir Evrópu heim til Íslands eins og t.d. knattspyrnulandsliðin okkar. FIBA-Europe þyrfti að breyta hjá sér keppnisfyrirkomulaginu til þess að gera evrópskan körfuknattleik vinsælan og sýniegan eins og t.d. á Íslandi.

Netfjölmiðlar eins og karfan.is, mbl.is og visir.is hafa reyndar verið mjög duglegir við að flyta fréttir af keppninni heim til Íslands og þar vil ég sérstaklega þakka þeim félögum á karfan.is fyrir öflugan fréttaflutning af þessari keppni sem og öðrum alþjóðlegum viðburðum körfuknattleik. Ég bind vonir við að íslenskar sjónvarpsstöðvar muni í næstu stórkeppnum í körfubolta gera okkur á Íslendingum kleyft að sjá þennan magnaða körfuknattleik sem er á boðstólum á leikjum sem þessum hér á Spán. Þar sem við Íslendingar erum alltaf dugleg við að miða okkur við Norðurlöndin þá er t.d EM í körfubolta sýnt í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi þrátt fyrir að þessi lönd eigi ekki fulltrúa í keppninni. En ég skynja mikinn áhuga stjórnenda íslenskra sjónvarpsstöðva fyrir því að sýna í framtíðinni frá jafn glæsilegri íþróttakeppni og fer fram hér á EM á Spáni.

Fyrir utan okkur Friðrik Inga eru hér einnig í Madrid 17 manna hópur íslenskra dómara sem komu hingað til þess að fræðast um dómgæslu og er það ánægjulegt fyrir okkur að sjá þann mikla áhuga og ánægju sem íslenskir dómarar hafa á því að læra af þeim bestu hér í Madrid. M.a. komu tveir FIBA-Eurpoe dómarar sem hafa verið að dæma hér hvern stórleikinn á fætur öðrum og miðluðu af reynslu sinni til íslenskra kollega sinna, vel gert hjá stjórn KKDÍ og þeirra félögum.

Með körfuboltakveðju frá EM í Madrid,

Hannes S.Jónsson Formaður KKÍ


gargandi snilld :-)

Það hefur sannarlega gengið vel hjá strákunum okkar  í undanförnum leikjum og er frammistaða þeirra hreint út sagt frábær. Spilaðir hafa verið 9 landsleikir á þessu ári hjá A-landsliði karla og hafa 8 af þeim unnist  - ekki slæm tölfræði þar. Strákarnir hafa lagt mikið sig ásamt þjálfarateyminu við að ná þessum árangri og er þetta svo sannarlega mikill persónulegur sigur fyrir þá alla sem og íslenskan körfubolta.

Núna þarf að setjast niður og leggja línurnar fyrir næstu keppni sem hefst að ári og aldrei að vita nema að A-landslið karla verði í A-deild Evrópukeppninnar eftir þá keppni.....

Ég vil nota tækfærið í þessari bloggfærslu minni og þakka öllum þeim áhorfendum sem hafa lagt leið sína á leiki landsliðanna okkar undanfarna daga, það er langt síðan að svona vel hefur verið mætt á alla heimaleiki okkar á einu hausti.

Stelpurnar okkar eiga eftir að spila tvo leiki þetta haustið en báðir leikirnir verða á útivelli.  Á laugardaginn næsta munu þær mæta Noregi og laugardaginn þar á eftir mæta þær Írlandi, það verður gaman að fylgjast með stelpunum í þessum leikjum.

 áfram körfubolti


mbl.is Íslendingar lögðu Austurríkismenn 91:77
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmennum í Laugardalshöllina i kvöld

Í kvöld mætir íslenska karlalandsliðið því austuríska í b-deild Evrópukeppni landsliða. Leikurinn verður í Laugardalshöllinni og hefst klukkan 19:15.

Það má búast við skemmtilegum leik í kvöld. Íslenska liðið hefur leikið vel á þessu ári og aðeins tapað einum leik af þeim 8 leikjum sem liðið hefur spilað á árinu. Sigurinn gegn Georgíumönnum í síðustu viku er enn í fersku minni enda fengu áhorfendur að sjá þar frábæran leik.

 

Sjá meir á kki.is


Evrópukeppnin

Evrópumótið í körfubolta fer fram þessa dagana á Spáni en keppnin hófst um sl.helgi og lýkur sunnudaginn 16.sept þegar nýjir Evrópumeistarar verða krýndir en það eru Grikkir sem eru handhafar þessa titils núna. Lokakeppni Evrópumótsins er gífurlega sterkt mót þar sem margir af bestu leikmönnum heims eru samankomnir. Í keppninni taka þátt 16 af sterkustu liðum Evrópu og er þeim skipt í 4 riðla. EM í körfubolta er einn af stærri íþrótaviðburðum í heimi og það sýnir hversu stór viðburður þetta mót er,  að sýnt er beint frá þessari keppni til 115 landa.

Spánverjar hafa lagt á sig mikla vinnu við að gera þessa keppni sem glæsilegasta og hefur verið mikil eftirvænting eftir þessu stóra viðburði og t.d. varð uppselt á leikina á mjög skömmum tíma, þess má geta að Spánverjar urðu á sl.ári heimsmeistarar í körfubolta

Hægt er að fara á heimasíðu mótsins hér.


Skeljungur öflugur samstarfsaðili

Eftirfarandi grein var ég að skrifa á vef KKÍ , og birti hér einnig

Fyrr í dag var haldinn blaðamannafundur þar sem undirritaður var tímamótasamningur við Skeljung hf um samstarf fyrirtækisins við KKÍ. Skeljungur mun verða aðalstuðningsaðili landsliða Íslands í körfubolta til ársloka 2010.

Þetta er í fyrsta sinn sem KKÍ gerir svo stóran samning við einn aðila sem kemur að fjármögnun landsliðs-og afreksstarfs sambandsins. Skeljungur mun koma að starfi landsliðanna, úrvals og afreksbúða KKÍ.

Með þessum öfluga stuðningi Skeljungs getur KKÍ eflt allt það starf sem er í kringum okkar bestu og efnilegustu leikmenn landsins í körfubolta. Stefnt verður að þátttöku yngri landsliða okkar í Evrópukeppni að nýju sem og að fjölga æfingaleikjum eins og kostur er hjá A-landsliðunum fyrir þátttöku þeirra í Evrópukeppnum.

Skeljungur hefur verið einn af samstarfsaðilum KKÍ frá árinu 2004 og hafa stjórnendur fyrirtækisins með þau Gunnar Karl Guðmundsson forstjóra og Guðrúnu Örmólfsdóttur markaðsstjóra í farabroddi séð tækifæri á því fyrir Skeljung að efla samstarfið enn frekar við KKÍ , færi ég þeim þakkir fyrir hönd KKÍ fyrir ánægjulega samvinnu undanfarið og hlakka ég til áframhaldandi samstarfs við þau og aðra starfsmenn Skeljungs.

Áhugi er einnig fyrir því hjá Skeljungi að koma enn frekar að starfi sambandsins með þátttöku í fræðslu-og útrbeiðslumálum körfboltans á komandi árum.

Hannes S. Jónsson
Formaður KKÍ


sögulegur áfangi

Set hér inn grein sem ég skrifaði á heimasíðu Körfuknattleikssambandsins;

Á morgun laugardag mun karlalandsliðið okkar mæta frændum okkar Finnum í B-deild Evrópukeppninar, en leikurinn fer að þessu sinni fram í Finnlandi. Löndin hafa mæst oft áður í landsleik en það sem gerir þennan leik óvenjulegan er að í fyrsta sinn er sjónvarpað beint frá landsleik í körfuknattleik af erlendri grundu.

Það er ánægjuefni fyrir okkur körfuboltamenn sem og landsmenn alla að RÚV mun sýna alla heimaleiki landsliðanna, sem fram fara í lok ágúst og byrjun september. Karlaleikirnir fara fram miðvikudagana 29. ágúst og 5. september og verða þeir sýndir fljótlega eftir að þeim lýkur eða kl. 23:25. Leikur kvennaliðsins við Hollendinga verður sýndur beint frá Ásvöllum laugardaginn 1. september kl. 16:00. Eins og leikur karlalandsliðsins við Finnland er sá leikur ekkert merkilegri en hver annar landsleikur, nema ef vera kynni fyrir þá staðreynd að þetta verður í fyrsta sinn þar sem íslenska kvennalandsliðið í körfubolta er sýnt beint í sjónvarpi. Fjöldi sjónvarpsútsendinga frá landsliðum okkar á einu hausti hefur aldrei verið meiri og er það í takt við þann aukna áhuga sem er á körfuboltanum hér landi.

Ágúst og september eru tími A-landsleikjanna á vegum FIBA Europe og eini tíminn því fyrir okkur körfuboltaáhugamenn að sjá A-landslið karla og kvenna spila. Vissulega myndum við vilja hafa leikina dreifðari yfir árið og vonandi kemur sá tími að keppnisfyrirkomula g FIBA Europe breytist til batnaðar.

Landsliðsmálefni KKÍ hafa verið í brennidepli í sumar. KKÍ þurfti að draga úr landsliðsstarfi sínu þar sem fjármagn sambandsins var af skornum skammti . Það er því gleðiefni að segja frá því að verið er að ganga frá samningi við nýjan samstarfsaðila KKÍ sem koma mun að landsliðsstarfi sambandsins og verður sá samingur kynntur í byrjun næstu viku. Það eru því bjartir tímar framundan í íslenskum körfuknattleik.

Ég hvet alla landsmenn að stilla á RÚV á morgun, laugardag, kl. 15:00 og sjá skemmtilegan landsleik í körfubolta, í fyrsta sinn beint frá útlöndum.

Hannes S.Jónsson

Formaður KKÍ


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband